Fótbolti

Fögnuðu sæti í Meistaradeildinni með umdeildum hætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn upp á skriðdrekanum fyrir leikinn.
Stuðningsmenn upp á skriðdrekanum fyrir leikinn. Getty/Srdjan Stevanovic
Rauða Stjarnan frá Belgrad tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær eftir 1-1 jafntefli í seinni leik sínum á móti Young Boys frá Sviss.

Rauða Stjarnan verður því í pottinum með liðum eins og Barcelona, Liverpool, Manchester City, Real Madrid og Paris Saint Germain þegar dregið verður á morgun.

Það var smá stress hjá leikmönnum Rauðu Stjörnunnar í lok leiksins í gærkvöldi eftir að Young Boys jafnaði metin í 1-1 og Serbarnir voru auk þess orðnir tíu á móti ellefu. Rauða Stjarnan hélt út stuðningsmönnum þeirra til mikillar ánægju en liðið fór áfram á fleirum mörkum skoruðum á útivelli.

Stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar buðu upp á nýjung fyrir þennan mikilvæga leik. Þeir mættu nefnilega með skriðdreka á svæðið og stilltu honum upp við þann enda vallarins sem hörðustu stuðningsmenn félagsins halda hópinn. Þeir eru kallaðir Delije strákar eða hörðu strákarnir og standa svo sannarlega undir nafni.

Þetta bauð líka upp á ákveðin en um leið umdeild fagnaðarlæti hjá stuðningsmönnum Rauðu Stjörnunnar sem fögnuðu upp á skriðdrekanum eftir leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan.





Skriðdrekinn tók þátt í Júgóslavíu stríðinu og forráðamenn Rauðu Stjörnunnar voru harðlega gagnrýndir fyrir að leyfa þetta uppátæki ekki síst frá fólki frá nágrannaríkjunum Króatíu og Bosníu sem fóru mjög illa út úr stríðinu við Serba.

Blaðamenn í Króatíu skrifuðu meðal annars um að þetta væri hrein og klár ögrun og skandall og kölluðu eftir aðgerðum frá UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×