Fótbolti

Orri Steinn skoraði fimm mörk gegn Færeyjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar enduðu í 7. sæti á Norðurlandamótinu.
Íslendingar enduðu í 7. sæti á Norðurlandamótinu. mynd/ksí
Orri Steinn Óskarsson, leikmaður Gróttu, skoraði fimm mörk þegar Ísland vann 6-0 sigur á Færeyjum í leik um 7. sætið á Norðurlandamóti U-17 ára í fótbolta.

Ísland fékk vítaspyrnu í upphafi leiks. Orri Steinn fór á punktinn en markvörður Færeyja varði. Hann lét það ekki á sig fá og kom Íslendingum yfir á 21. mínútu. 

Tveimur mínútum fyrir hálfleik skoraði Orri sitt annað mark eftir sendingu frá Selfyssingnum Guðmundi Tyrfingssyni. Staðan var 2-0 í hálfleik, Íslandi í vil.

Orri skoraði þrjú mörk á sjö mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks og staðan orðin 5-0, Íslendingum í vil.

Stjörnumaðurinn Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði svo sjötta mark Íslands á 82. mínútu. Kristian Nökkvi Hlynsson lagði upp þrjú af sex mörkum Íslendinga í leiknum.

Orri, sem er 14 ára, skaust fram á sjónarsviðið í fyrra þegar hann skoraði þrjú mörk fyrir Gróttu í 2. deildinni. Hann hefur leikið átta leiki með liðinu í Inkasso-deildinni í sumar. Seltirningar eru í 3. sæti, einu stigi frá 2. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×