Innlent

Tónleikagestir ánægðir með upplifunina þrátt fyrir langa bið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ed Sheeran á Laugardalsvelli í kvöld.
Ed Sheeran á Laugardalsvelli í kvöld. Vísir/Vilhelm
Nýtt skipulag verður á tónleikum Ed Sheeran í kvöld þegar fólki verður hleypt inn á tónleikasvæðið. Nokkurrar óánægju gætti meðal gesta sem þurftu margir hverjir að bíða í allt að tvo tíma eftir að komast inn á svæðið.

Nokkrir lýstu yfir óánægju með fyrirkomulag skipuleggjanda í gær, en ansi löng röð myndaðist inn á tónleikasvæðið  og greindu nokkrir tónlistargestir frá því að hafa beðið í nokkra klukkutíma til að komast inn á svæðið.

Þegar röðin var sem lengst náði hún frá Laugardalsvelli, upp að Glæsibæ og að Álfheimum.

Verkefnastjóri Senu Live sagði í samtali við fréttastofu að röðin langa hefði meðal annars skýrst af því að þeir sem áttu miða í stúku hafi stillt sér upp í sætisröðinni.

Í fréttatilkynningu frá Senu Live sem barst skömmu fyrir hádegi kemur fram að þegar ljóst var að röðin inn á standandi svæði tónleikanna í gær væri of hæg hafi verið tekið upp nýtt skipulag sem olli því að röðin gekk mun hraðar. Hið nýja skipulag verður við lýði í kvöld þegar hleypt verður inn á svæðið.

Þá biðst Sena Live afsökunar á þeim óþægindum sem löng röð olli.

Þeir sem fréttastofa náði tali af eftir tónleikana voru hæstánægðir með upplifunina.

„Upplifunin var rosaleg, æðisleg. Hann spilaði öll lög sem ég átti von á að heyra. Í einu orði sagt, æðislegt,“ sagði Goði Már Daðason, tónleikagestur.

Uppfyllti hann allar þínar væntingar?

„Hvort hann gerði,“ sagði Goði Már.

Myndir þú fara aftur?

„Hvort ég myndi,“ sagði Goði Már.

Fjölmargir nýttu sér þjónustu Strætó í gær en boðið var upp á gjaldfrjálsar strætóferðir frá Laugardalsvelli og að Kringlu fyrir og eftir tónleika. Að sögn upplýsingafulltrúa strætó voru 40 vagnar notaðir í kringum tónleikana til að koma fólki frá vellinum og tók um klukkustund að tæma Laugardalinn í gær.

Seinni tónleikar Sheeran fara fram á Laugardalsvelli í kvöld.

Í myndbandinu að neðan má sjá stemninguna á LAugardalsvelli í gær.


Tengdar fréttir

Breyta fyrirkomulagi eftir langa röð á fyrri tónleikana

Skipulagi á röðinni inn á tónleika Eds Sheeran á Laugardalsvelli í gærkvöldi var breytt þegar ljóst var orðið að röðin inn á standandi svæði vallarins gengi of hægt fyrir sig. Nýja skipulagið verður notað á seinni tónleikum söngvarans í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.