Erlent

Strokufangi fannst 16 kílómetrum frá fangelsinu eftir 4 daga leit

Andri Eysteinsson skrifar
Watson flúði fangelsið eftir að hafa myrt fangavörð.
Watson flúði fangelsið eftir að hafa myrt fangavörð. Getty/DavidMcNew
Fangelsisyfirvöld í Tennessee höfðu á dögunum uppi á strokufanganum Curtis Watson sem hafði verið á flótta í fjóra daga.

Upp komst um flótta Watson eftir að lík fangavarðar fannst síðasta miðvikudag. Talið er að Watson hafi myrt hana á meðan hann átti að vera á garðsláttarvakt og hafi í kjölfarið náð að flýja fangelsið. Biðlað var til almennings í grennd við fangelsið og þeim sem hefði hendur í hári Watson lofaðar háar fjárhæðir fyrir viðvikið. CBS greinir frá.



Yfir 400 lögreglumenn aðstoðuðu við leitina og yfir 430 manns hringdu inn með ábendingar. Leitin að Watson stóð yfir í fjóra daga áður en hann fannst ekki nema 16 kílómetrum frá West Tennesse ríkisfangelsinu í Henning, um 72 kílómetra frá Memphis.

Harvey og Ann Taylor greindu lögreglu frá því að þau hefðu séð Watson bregða fyrir á öryggismyndavélum heimilis þeirra um miðja nótt, en hann reyndi að fela sig nærri bílskýli heimilisins. Lögreglan var kölluð til og Watson freistaði þess að sleppa undan réttvísinni með því að hlaupa inn á akur í nágrenninu. Þegar hann yfirgaf akurinn beið hans ekkert nema hinn langi armur laganna og var hann umsvifalaust handtekinn og færður aftur í fangelsið.

Watson var upphaflega handtekinn fyrir ofbeldi gegn barni og var þá fangelsaður en látinn laus árið 2011, tveimur árum seinna fór hann í fangelsi í annað sinn vegna mannráns. Nú er Watson sakaður um morð af fyrstu gráðu, kynferðisbrot, innbrot og flótta úr fangelsinu. Því íhuga ákæruyfirvöld að leitast eftir því að Watson verði dæmdur til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×