Erlent

Á fjórða tug danskra slökkviliðsmanna á leið til Grænlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldurinn logar á milli þorpsins Sisimiut og Kangerlussuaq á Vestur-Grænlandi.
Eldurinn logar á milli þorpsins Sisimiut og Kangerlussuaq á Vestur-Grænlandi. Vísir/Getty
Flutningaflugvél af gerðinni Herkúles flytur nú 38 slökkviliðsmenn og tækjabúnað frá Danmörku til Grænlands þar sem þeir eiga að hjálpa heimamönnum við að ráða niðurlögum kjarrelda sem geisað hafa á vesturströndinni í meira en mánuð.

Eldurinn kraumar enn í mó við Kangerlussuaq-fjörð, norðaustur af bænum Sisimiut, á vesturströndinni. Hann kviknaði út frá viðarofni í byrjun júlí. Grænlenskir slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar höfðu náð tökum á eldinum að mestu í síðustu viku en hann færðist aftur í aukana þegar vindátt snerist á sunnudag.

Grænlenska heimastjórnin óskaði í kjölfarið eftir aðstoð frá Danmörku við að slökkva eldana. Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, segir að þegar Grænland kalli komi Danmörk til aðstoðar.

„Ég tel að það sé mikilvægt að við hjálpum og styðjum Grænland þegar þau óska eftir hjálp okkar,“ segir hún við danska ríkisútvarpið.

Dönsku slökkviliðsmönnunum er ætlað að gera varnarlínu til að hægt verði að halda eldinum í skefjum og koma í veg fyrir að hann breiðist frekar út. Jens Oddershede, yfirmaður alþjóðegra björgunarstarfa í Dammörku, segir að annars sé hætta á að eldurinn brenni áfram í marga mánuði eða jafnvel ár með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk, náttúru og dýralíf.

Búist er við því að danski hópurinn veðri að störfum á Grænlandi í tvær vikur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.