Fótbolti

Breiðablik í 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir öruggan sigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslandsmeistararnir fara áfram í Meistaradeildinni
Íslandsmeistararnir fara áfram í Meistaradeildinni vísir/bára
Íslandsmeistarar Breiðabliks eru komnir áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir öruggan sigur á Sarajevo í dag.

Bæði lið höfðu unnið báða leiki sína í riðlinum til þessa og var því um hreinan úrslitaleik að ræða, sigurliðið færi áfram. Blikum dugði hins vegar jafntefli þar sem þær voru með betri markatölu.

Fyrsta markið skoraði Berglind Björg Þovaldsdóttir eftir sendingu frá Alexöndru Jóhannsdóttur. Blikar tvöfölduðu forystuna á 30. mínútu. Heiðdís Lillýjardóttir skallaði boltann í átt að marki upp úr hornspyrnu, markmaður Sarajevo, Envera Hasanbegovic, varði en missti svo boltann í netið. Staðan 2-0 í hálfleik.

Berglind Björg gekk frá leiknum fyrir Blika á 81. mínútu með marki eftir sendingu frá Selmu Sól Magnúsdóttur. Sarajevo náði í sárabótamark undir lok leiksins þegar Tamara Bojat skoraði, en það dugði ekki til fyrir þær bosnísku, lokatölur urðu 3-1 og Breiðablik vinnur riðilinn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Á föstudaginn kemur í ljós hver andstæðingur Breiðabliks verður í 32-liða úrslitunum. Leikirnir fara fram í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×