Fótbolti

Ajax fékk þrjár vítaspyrnur gegn Sverri og félögum | Vonbrigði hjá Celtic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tadic tók þrjár vítaspyrnur í leiknum gegn PAOK og skoraði úr tveimur.
Tadic tók þrjár vítaspyrnur í leiknum gegn PAOK og skoraði úr tveimur. vísir/getty

Sverrir Ingi Ingason sat allan tímann á varamannabekknum þegar PAOK tapaði 3-2 fyrir Ajax í seinni leik liðanna í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Ajax fékk þrjár vítaspyrnur í leiknum.

Ajax, sem fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, vann einvígið, 5-4 samanlagt, og er komið áfram í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. PAOK fer hins vegar í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Grísku meistararnir komust yfir á 23. mínútu með marki Diegos Biseswar en Serbinn Dusan Tadic, sem fór á kostum á síðasta tímabili, jafnaði fyrir Ajax úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Hann hafði klúðrað víti um miðjan fyrri hálfleik.

Nicolas Tagliafico kom hollensku meisturunum yfir á 79. mínútu og Tadic skoraði svo sitt annað mark af vítapunktinum fimm mínútum fyrir leikslok. Bisewar minnkaði muninn í 3-2 í uppbótatíma en nær komst PAOK ekki.

Celtic er úr leik eftir 3-4 tap fyrir Cluj frá Rúmeníu á Celtic Park. Fyrri leikurinn fór 1-1 og rúmensku meistararnir unnu einvígið, 5-4 samanlagt.

Noregsmeistarar Rosenborg unnu Maribor, sem sló Val úr leik í 1. umferðinni, 3-1 og vann einvígið, 6-2 samanlagt.

APOEL, Club Brugge, Dinamo Zagreb, Olympiacos, Rauða stjarnan, LASK Linz og Krasnodar eru einnig komin áfram í umspilið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.