Erlent

Fékk máva í hreyflana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vélin var á leið frá Moskvu til Krímskaga þegar hún flaug inn í mávahóp.
Vélin var á leið frá Moskvu til Krímskaga þegar hún flaug inn í mávahóp. EPA/SERGEI ILNITSKY
Tuttugu og þrír farþegar rússneskrar farþegaþotu eru slasaðir eftir að vélin flaug inn í fuglasverm og þurfti að nauðlenda á engi nærri Moskvu. Að sögn breska ríkisútvarpsins þurftu flugmenn að framkvæma lendinguna án þess að styðjast við hreyfla eða lendingarbúnað vélarinnar.

Airbus 321-vél flugfélagsins Ural Airlines var á leið frá Moskvu til Simferopol á Krímskaga þegar hún hafnaði á mávahópi, skömmu eftir flugtak. Talið er að fuglarnir hafi sogast inn í hreyflana með þeim afleiðingum að hreyflarnir skemmdust. Talið er að þeir séu með öllu ónothæfir og ólíklegt þykir að vélinni verði flogið aftur.

Alls voru 233 farþegar um borð og særðust á þriðja tug sem fyrr segir, þar af voru fimm börn. Hin slösuðu voru flutt á sjúkrahús en farþegarnir eru sagðir hafa særst mismikið við lendinguna, sumir alvarlega. Aðrir farþegar voru fluttir aftur á flugvöllinn þaðan sem þeim verður reynt að koma á áfangastað með öðrum vélum.

Rússnesk flugmálayfirvöld eru með málið til rannsóknar en þarlendir miðlar eru þegar farnir að tala um nauðlendinguna sem „kraftaverkið yfir Ramenskoye,“ sem er bæjarfélag suðaustan af Moskvu þar sem vélin nauðlenti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.