Erlent

Á sjöunda tug féll í sprengingunni í brúðkaupi í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Lík eins þeirra sem féllu í árásinni borið til grafar í dag.
Lík eins þeirra sem féllu í árásinni borið til grafar í dag. Vísir/EPA
Sjálfsmorðssprengjumaður var að minnsta kosti 63 að bana og særði 180 til viðbótar þegar hann sprengdi sjálfan sig í loft upp í miðri brúðkaupsathöfn í Kabúl, höfuðborg Afganistans í gær. Talibanar neita ábyrgð á ódæðinu og engir aðrir hópar hafa viðurkennt að hafa staðið að því.

Sprengjan sprakk í vesturhluta borgarinnar þar sem aðallega sjíamúslimar búa um klukkan 22:40 að staðartíma í gærkvöldi. Breska ríkisútvarpið BBC segir að herskáir súnnímúslimar, þar á meðal talibanar og Ríki íslams, hafi ítrekað ráðist á sjíaminnihlutann í Afganistan og Pakistan.

Kynin eru alla jafna aðskilin í afgönskum brúðkaupum. Vitni segir að hann hafi verið á kvennasvæðinu þegar hann heyrði mikla sprengingu á karlasvæðinu.

„Allir hlupu út hrópandi og grátandi,“ sagði Mohammad Farhag, einn brúðkaupsgestanna.

Salurinn hafi verið fullur reyks í um tuttugu mínútur eftir sprenginguna. Nær allir á karlasvæðinu hafi látið lífið eða særst. Enn hafi verið að flytja lík af svæðinu tveimur klukkustundum eftir sprenginguna.

Talsmaður talibana, sem nú semja um frið í landinu við Bandaríkjastjórn, sagðist fordæma árásina harðlega.

„Það er engin réttlæting til fyrir svo yfirveguðum og hrottafengnum morðum sem beinast að konum og börnum,“ sagði Zabiullah Mujaheed, talsmaður talibana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×