Erlent

Þjálfunarbúðir fyrir 254 þingmenn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Volodíjmíjr Selenskíj, forseti Úkraínu.
Volodíjmíjr Selenskíj, forseti Úkraínu. Vísir/getty
Þjónn fólksins, stjórnmálaflokkur Úkraínuforsetans Volodíjmíjrs Selenskíj sem nefndur er eftir sjónvarpsþáttum þar sem Selenskíj fór einmitt með hlutverk forseta, stendur í vikunni fyrir stærðarinnar þjálfunarbúðum fyrir nýkjörna þingmenn flokksins. Reut­ers greindi frá málinu í gær.

Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram til þings fyrr í mánuðinum, uppskar vel og styrkti þannig stöðu forsetans til muna. Þjónn fólksins fékk 254 þingsæti af 424 og þannig hreinan meirihluta. Reynsluleysi gæti hins vegar reynst hinum nýja þingmeirihluta erfitt enda hefur þessi stærðarinnar þingflokkur samanlagt núll daga reynslu af þingstörfum.

Jelíjsaveta Bogútska, einn hinna nýju þingmanna, líkti þessum tímamótum við það að byrja í háskóla. „Það fer enginn í háskóla sem þaulreyndur sérfræðingur. Við byrjum á byrjuninni en munum öðlast reynslu. Sumir Úkraínumenn hafa efasemdir um hversu margir nýgræðingar náðu kjöri en ég tel að innan skamms muni fólk sjá að þessi tilraun heppnast vel.“ – þea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×