Innlent

Sex gistu í fangaklefa í Eyjum í nótt

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Vísir/Óskar P.
Talsverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og í nótt þar sem þjóðhátíð fór fram. Sex gistu fangaklefa, þrír vegna minniháttar líkamsárásar, einn sem var grunaður um sölu fíkniefna og tveir vegna ölvunar og óspekta.

Lögreglan í Vestmannaeyjum segir enga hafa hlotið alvarlega áverka vegna þessara árása. Tíu fíkniefnamál komu upp og var í öllum nema einu um svokölluð neyslumál að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi fór skemmtanahald vel fram. Fá útköll voru vegna vímuástands eða óspekta, en einn gisti þó í fangageymslu á Selfossi.

Þá var nokkur erill vegna hraðakstursbrota en 20 ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu síðasta sólarhringinn, en margir eru nú á ferðalagi í umdæminu.

Sá sem hraðast ók var mældur á 176 kílómetra hraða á klukkustund. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum á staðnum og þurfti að láta af hendi nokkurra daga gamalt ökuskírteini sitt. Að sögn lögreglu verður fylgst vel með umferðinni á næstu dögum. Eftirlitsstöðvar verða settar upp á völdum stöðum þar sem ástand ökutækja verður kannað, sem og ástand og réttindi ökumanna. Lögregla verður einnig með óeinkennisklædda lögreglumenn á ferð um umdæmið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var nóttin róleg. Þrír voru vistaðir í fangaklefum eftir nóttina og komu nokkur mál komu upp vegna ölvunar og óláta í miðborginni.

Á Akureyri er fjöldi fólks kominn saman og öll tjaldstæði þétt setin að sögn Hermanns Karlssonar, aðalvarðstjóra. Hann segir að nóttin hafi gengið vel en enginn gisti fangageymslu og kom ekkert fíkniefnamál upp. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×