Innlent

Hlupu út í Jökulsárlón og klifruðu upp á ísjaka

Sylvía Hall skrifar
Að sögn Adolfs Inga voru mennirnir ekkert að hugsa sig tvisvar um.
Að sögn Adolfs Inga voru mennirnir ekkert að hugsa sig tvisvar um. Adolf Ingi Erlingsson
Tveir ungir menn hugsuðu sig ekki tvisvar um þegar þeir hlupu á undirfötunum út í Jökulsárlón fyrr í kvöld. Þegar í lónið var komið færðu þeir sig að ísjaka sem flaut í lóninu og klifruðu upp á hann. Adolf Ingi Erlingsson birti myndir og myndband af atvikinu á síðu Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar.

Í samtali við Vísi segir Adolf Ingi mennina hafa líklega verið í kringum tvítugt og heldur að þarna hafi verið um erlenda ferðamenn að ræða.

„Þetta eru kornungir strákar, kannski rétt um tvítugt. Ég hef aldrei séð svona áður, þeir komu keyrandi þarna, stukku út úr bílnum og hlupu út í. Svo bara syntu þeir út að jakanum og príluðu upp á hann,“ segir Adolf Ingi um atvikið.

Á myndbandinu sjást mennirnir reyna að halda jafnvægi á jakanum á meðan hann flýtur að landi. Þeir virðast hæstánægðir með afrekið, ef svo má að orði komast, og steyta hnefann sigri hrósandi upp í loft. 

„Það náttúrulega flæddi að og það ýtti jakanum upp aftur og þeir krupu bara þarna á honum. Þeim fannst þetta alveg stórsniðugt.“ 

Töluverður fjöldi ferðamanna var við lónið þegar atvikið átti sér stað en segir Adolf fólk ekki hafa kippt sér mikið upp við þetta uppátæki.

Feta í fótspor Bieber? 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem frakkir menn stinga sér til sunds í Jökulsárlóni. Árið 2015 gaf söngvarinn og stórstjarnan Justin Bieber út tónlistarmyndband við lagið I‘ll Show You þar sem hann, meðal annars, hleypur út í lónið á nærbuxum einum fata. 

Við lónið er skilti þar sem kemur fram að bannað sé að synda í lóninu en hingað til hafa þó ansi margir farið á svig við þær reglur.

Í mars á síðasta ári vakti það athygli þegar ungur ferðamaður frá Kanada stökk á milli ísjaka til þess að ná betri mynd. Árið 2015 fækkuðu svo tveir ferðamenn fötum á ísnum og stilltu sér upp fyrir myndatöku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×