Innlent

Sláandi munur á kletta­snös við Fjaðrár­gljúfur fyrir og eftir Bieber

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi Bieber sem sýnir umrædda klettasnös árið 2015.
Skjáskot úr myndbandi Bieber sem sýnir umrædda klettasnös árið 2015.
Umhverfisstofnun birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má tvær myndir af sömu klettasnösinni við Fjaðrárgljúfur.

Önnur myndin er úr tónlistarmyndbandi poppstjörnunnar Justin Bieber sem birt var á Youtube í nóvember 2015. Hin myndin, sem tekin var í janúar 2018, sýnir skilti við snösina þar sem tilkynnt er um lokun svæðisins.

Ekki verður annað sagt en munurinn á því hvernig svæðið var fyrir Bieber og svo eftir hann sé sláandi eins og sjá má í færslunni hér fyrir neðan.





Fjaðrárgljúfur er einmitt lokað fyrir umferð þessa dagana sem og hluti af Skógaheiði við Skógafoss þar sem veruleg hætta er á skemmdum sökum tíðarfars og mikillar umferðar um svæðin.

Um þessar mundir er nefnilega einn viðkvæmasti tími ársins þegar kemur að umferð gesta um íslenska náttúru eða eins og segir í færslu Umhverfisstofnunnar:

„Snjóalög og frost hopa fyrir leysingum og þarf ferðafólk að sýna aðgát til að koma í veg fyrir að umferð þess skilji eftir sig ummerki í náttúrunni.

Hér má sjá tvær myndir af sömu klettasnösinni við Fjaðrárgljúfur, teknar með rúmlega 2 ára millibili. Sú fyrri er úr myndbandi poppstörnunnar Justin Bieber við lagið I´ll Show You, í september 2015. Sú síðari, sem sýnir nýlegt skilti við snösina, er tekin í janúar 2018.

Eins og sjá má hefur reglum ekki verið fylgt til hins ítrasta - töluvert hefur verið gengið út fyrir merkta gönguslóða og framhjá skiltinu.

Með samanburði á myndunum tveimur sést einnig mikill munur á ástandi gróðurþekjunnar á snösinni.

„Þetta eru hreinar gróðurskemmdar sökum ágangs á viðkvæmu svæði,“ segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Sumir gestir virða því miður reglur svæðisins að vettugi. Það eru fjölmargar snasir í sama ástandi við gljúfrið í dag.““






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×