Erlent

Rannsaka hómófóbísk ummæli biskups á Kýpur

Sylvía Hall skrifar
Neophytos þykir umdeildur.
Neophytos þykir umdeildur. Vísir/EPA
Rannsókn stendur nú yfir á ummælum gríska biskupsins Neophytos í garð samkynhneigðra. Lögreglan á Kýpur hóf rannsókn málsins að ósk saksóknara á Kýpur en líklegt þykir að biskupinn hafi gerst brotlegur við lög um hatursorðræðu.

Á vef Guardian segir að ummælin snúi að samkynhneigðum en biskupinn sagði samkynhneigð geta „smitast“ þegar óléttar konur stunduðu endaþarmsmök.

„Þeir segja þetta vera vandamál sem smitast vanalega til barns frá foreldrum,“ sagði biskupinn einni ræðu sinni í fyrirlestraröð sem kallaðist „andlegir fundir samræðna“.

Hann sagði smitið eiga sér stað þegar foreldrarnir tækju þátt í „erótískum athæfum“ sem væru ónáttúruleg. Þá sagði hann samkynhneigða karlmenn auðþekkjanlega því þeir gæfu frá sér ákveðinn ilm.

Ríkisstjórn landsins hefur fordæmt ummælin og sagt þau vera aðför að heiðri og jafnrætti Kýpverja. Þá hafa samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks kallað eftir því að gripið verði til aðgerða og hann verði settur af.

Í kjölfar ummæla biskupsins hefur fjöldi fólks stigið fram og sagt yfirmenn kirkjunnar mæla með meðferð gegn samkynhneigð. Það hafi orðið til þess að margir hafi glímt við sjálfsvígshugsanir og mikla vanlíðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×