Erlent

Reyndi að yfirgefa fangelsið í gervi dóttur sinnar

Sylvía Hall skrifar
Da Silva var óþekkjanlegur í með grímuna.
Da Silva var óþekkjanlegur í með grímuna. Skjáskot/AP
Brasilíski glæpaforinginn Clauvino da Silva, sem iðulega gengur undir nafninu Shorty, gerði heiðarlega tilraun til þess að sleppa úr Gericinó fangelsinu á laugardag þegar nítján ára dóttir hans heimsótti hann. Taugarnar urðu honum hins vegar að falli.

Í myndbandi sem birt var á vef Guardian sést da Silva með sílíkongrímu og hárkollu og klæddur í föt dóttur sinnar. Hún hafði heimsótt hann í fangelsið og ætlaði hann að skilja hana eftir á meðan hann reyndi að yfirgefa fangelsið.

Að sögn fangavarða komst upp um da Silva þar sem hann var bersýnilega stressaður þegar hann reyndi að yfirgefa fangelsið. Lögregla rannsakar nú hlut dóttur hans í málinu og hvort hún hafi átt þátt í því að reyna að koma föður sínum úr fangelsi.

Da Silva var háttsettur innan glæpagengisins Red Command sem er einn valdamesti hópurinn í undirheimum Brasilíu. Hópurinn stjórnaði að stórum hluta eiturlyfjaviðskiptum á stóru svæði í höfuðborginni Rio de Janeiro. Hann hefur nú verið fluttur í öryggisfangelsi og mun verða beittur agaviðurlögum að sögn yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×