Innlent

Harður árekstur á Þjórsárdalsvegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúkraflutningamenn voru sendir á vettvang.
Sjúkraflutningamenn voru sendir á vettvang. Vísir/vilhelm
Umferðarslys varð á Þjórsárdalsvegi, miðja vegu milli Gaukshöfða og Hjálparfoss, á ellefta tímanum í morgun. Tveir bílar lentu þar í árekstri en samtals voru sex manns í bílunum tveimur. Þrír voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík og þrír á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, allir með sjúkrabíl. Ekki er talið að neinn hafi slasast alvarlega í slysinu. Að minnsta kosti einn er talinn hafa hlotið beinbrot.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og brunavörnum Árnessýslu er líklega um erlenda ferðamenn að ræða. Lið frá slökkviliðsstöðinni í Árnesi var sent á vettvang þegar tilkynning barst um slysið, auk sjúkraflutningamanna og lögreglu.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að slysið hafi ekki reynst jafn alvarlegt og leit út fyrir í fyrstu. Viðbragðsaðilar aðstoðuðu fólkið við að komast úr bílunum en ljóst þykir að áreksturinn hafi verið harður.

Gaukshöfði er merktur inn á kortið hér fyrir neðan en slysið varð á Þjórsárdalsvegi austan við höfðann, áður en komið er að Hjálparfossi. Loka þurfti veginum um tíma en opnað hefur verið aftur fyrir umferð.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×