Innlent

Harður árekstur á Þjórsárdalsvegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúkraflutningamenn voru sendir á vettvang.
Sjúkraflutningamenn voru sendir á vettvang. Vísir/vilhelm
Umferðarslys varð á Þjórsárdalsvegi, miðja vegu milli Gaukshöfða og Hjálparfoss, á ellefta tímanum í morgun. Tveir bílar lentu þar í árekstri en samtals voru sex manns í bílunum tveimur. Þrír voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík og þrír á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, allir með sjúkrabíl. Ekki er talið að neinn hafi slasast alvarlega í slysinu. Að minnsta kosti einn er talinn hafa hlotið beinbrot.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og brunavörnum Árnessýslu er líklega um erlenda ferðamenn að ræða. Lið frá slökkviliðsstöðinni í Árnesi var sent á vettvang þegar tilkynning barst um slysið, auk sjúkraflutningamanna og lögreglu.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að slysið hafi ekki reynst jafn alvarlegt og leit út fyrir í fyrstu. Viðbragðsaðilar aðstoðuðu fólkið við að komast úr bílunum en ljóst þykir að áreksturinn hafi verið harður.

Gaukshöfði er merktur inn á kortið hér fyrir neðan en slysið varð á Þjórsárdalsvegi austan við höfðann, áður en komið er að Hjálparfossi. Loka þurfti veginum um tíma en opnað hefur verið aftur fyrir umferð.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.