Enski boltinn

Ragnar Bragi: Þeir eru búnir að vera í basli með formið á sér

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Ragnar Bragi í leik gegn Val á síðustu leiktíð.
Ragnar Bragi í leik gegn Val á síðustu leiktíð. vísir/bára
Fylkir tapaði 1-0 á Hlíðarenda í kvöld gegn Íslandsmeisturum Vals. Fylkismenn sem fyrir tveimur fótboltaleikjum síðan voru í Evrópubaráttu eru núna nær fallsæti en Evrópusæti.

„Ég er bara ótrúlega svekktur að ná ekki í stig miðað við alla vinnuna sem við lögðum í þennan leik. Það tekur rosalega á að liggja svona svakalega tilbaka. Þess og heldur er enn meira svekkjandi að taka ekki allavega stig úr þessum leik,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson leikmaður Fylkis að leik loknum.

Fylkismenn gerðu lítið sóknarlega í fyrri hálfleik en áttu nokkur ágætis færi í seinni hálfleik. Það gekk ágætlega hjá þeim að verjast en Valsmenn fengu þó fleiri færi en þetta sem Ragnar Bragi kallar skítamark.

„Þetta var ekkert endilega lélegur fyrri hálfleikur við ætluðum bara að liggja tilbaka. Við ætluðum bara að verja okkar mark sem gekk þokkalega vel í fyrri hálfleik nema þetta skítamark úr snöggri aukaspyrnu.“  

Valsmenn eru búnir að eiga það mikið til í sumar að missa niður forystur og fá mörk á sig undir lok leikja. Einhverjir spekingar vilja meina að formið sé ekki nógu gott hjá þeim, þar á meðal Ragnar Bragi.

„Þetta var bara okkar upplegg að liggja tilbaka fyrstu 60 mínúturnar og setja síðan pressu á þá þegar þeir eru orðnir þreyttir. Þeir eru búnir að vera í basli með formið á sér.“

Fylkismenn eru nú búnir að tapa tveimur leikjum í röð og þar af leiðandi farnir að fjarlægjast sína Evrópudrauma. Það er hinsvegar stutt á milli og 7 leikir eftir af tímabilinu.

„Af sjálfsögðu þetta er bara ótrúleg deild. Það er rosalega stutt á milli eins og allir vita. Við erum núna búnir að tapa tveimur í röð en ef maður vinnur tvo í röð er maður fljótur upp töfluna líka þannig að við látum ekki deigan síga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×