Erlent

Leiðtogi Dúbaí og eiginkona takast á fyrir breskum dómstólum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjeik Mohammed al-Maktoum (t.v) með Hayu prinsessu árið 2016.
Sjeik Mohammed al-Maktoum (t.v) með Hayu prinsessu árið 2016. Vísir/EPA
Forræðisdeila Sjeik Mohammed al-Maktoum, leiðtoga Dúbaí, og Haya Bint al-Hussein, prinsessu og eiginkonu hans, verður tekin fyrir hjá breskum dómstólum. Haya prinsessa flúði Dúbaí með börn þeirra og hefur hafst við í London undanfarin misseri.

Sagt var frá því fyrr í sumar að Haya prinsess byggi í glæsiíbúð í miðborg London en hún flúði upphaflega til Þýskalands. Hún hafi flúið Dúbaí eftir að hún komst að sláandi upplýsingum um flóttatilraun Sjeiku Latifa, eina ef dætrum furstans, í fyrra. Latifa var snúið til baka til Dúbaí af vopnuðum mönnum undan ströndum Indlands, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vegna vitneskju sinnar er Haya sögð hafa verið undir vaxandi þrýstingi stórfjölskyldu eiginmanns hennar. Talið er að hún óttist um líf sitt.

Haya er upprunalega frá Jórdaníu og giftist Maktoum árið 2004. Hún varð þá sjötta og yngsta eiginkona hans. Furstinn er talinn eiga 23 börn með eiginkonum sínum.

Dómsmál hjónanna í London er sagt snúast um börn þeirra. Málið er talið höfuðverkur fyrir bresk stjórnvöld sem eiga í nánu sambandi við Sameinuðu arabísku furstadæmin, ekki síst ef Haya vill leita hælis í Bretlandi en eiginmaður hennar krefst þess að hún snúi heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×