Innlent

Tilkynntur til lögreglu fyrir að reykja fisk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í tilkynningu lögreglu segir að maðurinn hafi staðið að eldamennskunni fyrir utan vinnubúðir í Mosfellsbæ.
Í tilkynningu lögreglu segir að maðurinn hafi staðið að eldamennskunni fyrir utan vinnubúðir í Mosfellsbæ. Vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gær tilkynnt um mann sem var að reykja fisk við opinn eld í Mosfellsbæ. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn, sem er erlendur, hafi verið búinn að koma sér upp „hinni fínustu aðstöðu“ utan við vinnubúðir í bænum.

Ekki þótti hætta stafa af eldamennskunni en maðurinn ákvað þó að slökkva eldinn af tillitssemi við nágranna.

Á áttunda tímanum var tilkynnt um innbrot og þjófnað í geymslur íbúðar í Laugardalnum. Þjófurinn komst á brott með verðmæti.

Þá handtók lögregla þrjá menn í annarlegu ástandi, einn í Kópavogi, annan í Fossvogi og þann þriðja í Breiðholti. Þeir voru allir vistaðir í fangageymslu.

Um áttaleytið var tilkynnt um bát sem hafði hvolft á Elliðavatni. Þar reyndust vera fjögur ungmenni „í góðum gír“, líkt og segir í dagbók lögreglu. Unglingarnir voru að reyna að koma bátnum í land og reyndist engin hætta á ferðum.

Þá hafði lögregla  afskipti af ökumanni bifreiðar við Vesturlandsveg en bifreiðin ók á röngum skráningarnúmerum. Ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

Lögregla stöðvaði einnig bifreið í miðbænum þar sem henni var ekið á nagladekkjum. Ökumaðurinn er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×