Erlent

Skaðabætur vegna illgresiseyðisins Roundup stórlækkaðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Monsanto framleiddi Roundup en þýska stórfyrirtækið Bayer keypti fyrirtækið fyrir 63 milljarða dollara í fyrra.
Monsanto framleiddi Roundup en þýska stórfyrirtækið Bayer keypti fyrirtækið fyrir 63 milljarða dollara í fyrra. Vísir/EPA
Dómari í Kaliforníu stórlækkaði skaðabætur sem stórfyrirtækið Bayer AG var dæmt til að greiða fólki sem taldi illgresiseyðinn Roundup hafa valdið þeim krabbameini. Kviðdómur hafði mælt með því að stefnendurnir fengju tvo milljarða dollar í bætur en dómari ákvað að hæfilegar bætur væru tæpar 87 milljónir dollara.

Alva og Alberta Pilliod stefndu Monsanto sem Bayer AG keypti í fyrra þar sem þau töldu að rekja mætti krabbamein þeirra til Roundup. Rúmlega þrettán þúsund manns hafa stefnt þýska fyrirtækinu vegna illgresiseyðisins í Bandaríkjunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Fyrirtækið hefur þegar tapað þremur slíkum málum en hefur áfrýjað.

Stefnendur telja að Roundup valdi eitlaæxli og að Monsanto hafi um áratugaskeið reynt að hafa áhrif á vísindamenn og eftirlitsaðila til að þagga niður vísbendingar um tengsl efnisins við krabbamein. Bayer hefur hafnað þeim ásökunum.

Upphaflega var Pilliod-hjónunum dæmt jafnvirði um 244 milljarða íslenskra króna í skaðabætur. Dómarinn í málinu taldi upphæðina of háa og að hún samræmdist ekki stjórnarskrá Kaliforníu. Þess í stað fá þau um sautján milljónir dollara, jafnvirði rúmra tveggja milljarða króna, í miskabætur og 69 milljónir dollara, jafnvirði 8,4 milljarða króna, í refsibætur. Þau þurfa að fallast á lækkuðu bæturnar.

Bayer hafði krafist þess að refsibæturnar yrðu felldar alveg niður. Dómarinn taldi aftur á móti sýnt fram á að stjórnendur Monsanto hefðu reynt að hindra og brengla vísindarannsóknir á áhrifum eitursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×