Innlent

Líkur á þrumuveðri austantil

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tugir eldinga hafa mælst austan við landið.
Tugir eldinga hafa mælst austan við landið. vísir/getty
Samskil ganga nú yfir landið að sögn veðurfræðings og rignir nú víða um austanvert landið. Tugir eldinga hafa mælst um 100 kílómetra austur af Hornafirði í skúraklakka sem myndast yfir skilunum.

Þrátt fyrir að veðurfræðingurinn telji líklegast að skúraklakkinn haldi óbreyttri stefnu í norðnorðvestur og að eldingarnar nái ekki inn á land er það þó ekki útilokað. Ekki þurfi nema litla tilfærslu til vesturs til þess að klakkinn skili sér í þrumuveðri á Austfjörðum.

„Raunar er annar klakki tæpa 300 km suður af Öræfajökli sem er að fjara út, en mögulega mun fyrirstaðan sem landið veitir gefa honum nýjann kraft og þar að leiðandi eldingar með suðausturströndinni,“ segir veðurfræðingurinn.

Hvað sem þessu líður þá er búist við hægum vindi á landinu í dag og að það haldist þurrt suðvestanlands fram á kvöld. Það getur þó farið að hvessa örlítið norðvestantil eftir því sem líður á daginn en þar ætti engu að síður að vera úrkomulítið.

Hitinn verður á bilinu 8 til 18 stig í dag og verður hlýjast á suðvesturhorninu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Austan 5-13 m/s og rigning með köflum, en þurrt að mestu á Norðuraustur- og Austurlandi. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustantil. 

Á sunnudag:

Suðaustan 5-13 og rigning suðaustanlands en úrkomulítið vestantil fram á kvöld. Þurrt um norðanvert landið. Hiti víða 14 til 22 stig, hlýjast norðaustantil. 

Á mánudag:

Austan 5-13 og rigning um tíma sunnan- og vestanlands, en þurrt norðaustantil. Hiti frá 10 stigum með norðurströndinni upp í 23 stig vestanlands. 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Austan og norðaustan 5-10 m/s, en 10-15 norðvestantil og með suðurströndinni. Væta af og til, en lengst af þurrt um norðanvert landið. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag:

Líkur á norðaustanátt og bjartviðri, en skýjuðu veðri um austanvert landið og dálítilli rignigu suðaustanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Vesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×