Innlent

Vætu spáð víðast hvar á landinu um helgina

Eiður Þór Árnason skrifar
Veðrið verður einna síst á höfuðborgarsvæðinu.
Veðrið verður einna síst á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið/Anton
Veðurhorfur um helgina teljast varla góðar fyrir fólk sem hyggst stunda útiveru um helgina, ef marka má spá veðurfræðings í samtali við Vísi.

Eftir rigningu á Austurlandi og Norðurlandi eystra í dag mega Sunnlendingar vænta þess að rigningin fari að vinna sig inn á Suðurlandið og verði þar í nótt og yfir helgina.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta reiknað með rigningu mest allan laugardag en þó ætti að vera þurrt þar annað kvöld. Flestir landsmenn ættu að búa sig undir einhverja dropa um helgina þar sem einhverri rigningu er spáð víðast hvar á landinu.

Á sunnudaginn má búast við lítils háttar vætu á flestum stöðum, en skást verður norðaustanlands.

„Það er helst Akureyri, Mývatn, Ásbyrgi og Norðurland eystra sem fer best út úr þessu og fær minnsta úrkomu.“ Þar er einnig ágætis útlit fyrir að sjáist til sólar á sunnudag.

Aftur á móti er því spáð að veðrið verði einna síst á Suðurlandi og Suðvesturlandi. „Þetta er svona bærilegt, en ekkert frábært.“

Útlit er fyrir að veðrið verði áfram svipað eftir helgi, úrkoma um sunnanvert landið sem teygir sig aðeins á Vesturland. Þó megi búast við talsverðum hlýindum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×