Erlent

Forsetaframbjóðandinn Tulsi Gabbard höfðar mál gegn Google

Eiður Þór Árnason skrifar
Gabbard er umdeild innan Demókrataflokksins og er af mörgum talin vera íhaldssamari en gengur og gerist í flokknum.
Gabbard er umdeild innan Demókrataflokksins og er af mörgum talin vera íhaldssamari en gengur og gerist í flokknum. Getty/Justin Sullivan
Tulsi Gabbard, frambjóðandi í forvali Demókrata fyrir forsetakosningar á næsta ári, hyggst lögsækja tæknirisann Google fyrir koma í veg fyrir að framboð hennar gæti birt auglýsingar hjá leitarniðurstöðum fyrirtækisins.

Framboðið sakar Google um að hafa brotið á tjáningarfrelsi Gabbard og krefst fimmtíu milljóna Bandaríkjadala í skaðabætur frá fyrirtækinu, eða sem nemur rúmum sex milljörðum íslenskra króna.

Atvikið átti sér stað eftir fyrstu kappræður forsetaframbjóðendaefna Demókrata í júní þegar Google lokaði stuttlega á auglýsingareikning framboðsins. Fljótlega eftir kappræðurnar var Gabbard sá frambjóðandi sem mest var leitað af í leitarvél Google. Hugðist framboð hennar nýta sér þá stöðu með því að kaupa auglýsingar sem settu heimasíðu Gabbard efst í leitarniðurstöðurnar.

Framboðið segir að Google hafi staðið í vegi fyrir því að það birti auglýsingar í um sex klukkutíma og þar með skert getu Gabbard til þess að fá fjárframlög og koma skilaboðum sínum til mögulegra kjósenda.

Þetta er talið vera í fyrsta skipti sem forsetaframbjóðandi höfði mál gegn tæknifyrirtæki af sömu stærðargráðu.

Gabbard hefur verið fulltrúadeildarþingmaður Havaí frá árinu 2013 og var fyrsti hindúinn til að ná kjöri til Bandaríkjaþings.


Tengdar fréttir

Gabbard tilkynnir framboð sitt til forseta

Þingmaðurinn Tulsi Gabbard tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×