Fótbolti

Patrice Evra tilkynnti um "endalokin“ á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra með enska meistarabikarinn eftir sigur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni vorið 2011.
Patrice Evra með enska meistarabikarinn eftir sigur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni vorið 2011. Getty/John Peters
Patrice Evra, fimmfaldur Englandsmeistari með Manchester United, hefur ákveðið að setja fótboltaskóna upp á hillu. Hann tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum í dag.

Patrice Evra er 38 ára gamall en þessi vinstri bakvörður hefur ákveðið að hætta að spila og snúa sér að þjálfun í staðinn.

Evra er langþekktastur fyrir tíma sinn í Manchester borg þar sem hann var álitinn vera í hópi bestu bakvarða heimsins. Endalok ferilsins voru ekki eins glæsileg og sumir gæti stimplað þau sem vandræðalega fyrir þennan litríka Frakka.

Patrice Evra kom til Manchester United í janúar 2006 en enska félagið keypti hann þá frá Mónakó í Frakklandi. Evra spilað með United til ársins 2014 og lék 273 leiki fyrir félagið.

Áður en Patrice Evra fór til Juventus eftir átta ára dvöl á Old Trafford þá hafði hann unnið ensku deildina fimm sinnum, enska deildabikarinn þrisvar og Meistaradeildina einu sinni.





Patrice Evra varð þrisvar sinnum ítalskur meistari með Juventus en snéri heim til Frakklands eftir þrjú ár og samdi við Marseille.

Patrice Evra lenti þar í vandræðum eftir að hafa sparkað í andliti áhorfanda og var í kjölfarið rekinn frá Marseille og dæmdur í sjö mánaða bann frá fótbolta.

Síðasta félag Patrice Evra á ferlinum var West Ham en hann náði aðeins að leika fimm leiki fyrir Lundúnafélagið.

Patrice Evra lék alls 81 landsleik fyrir Frakkland.

Hér fyrir neðan má sjá kveðju Evra á Twitter en Frakkinn er mikil samfélagsmiðlastjarna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×