Erlent

Níu látnir í flugslysi í Svíþjóð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi hins sextán ára Axels, sem varð vitni að slysinu við Umeå í dag.
Skjáskot úr myndbandi hins sextán ára Axels, sem varð vitni að slysinu við Umeå í dag. Skjáskot/SVT

Níu eru látnir eftir að lítil flugvél brotlenti á eyjunni Storsandskär í grennd við sænsku borgina Umeå skömmu eftir klukkan tvö að sænskum tíma í dag. Enginn komst lífs af úr slysinu en talið er að farþegarnir í vélinni hafi verið fallhlífastökkvarar.

SVT hefur eftir sjónarvotti að fólk hafi stokkið út úr vélinni áður en hún brotlenti. Viðbragðsaðilar eru enn að störfum á vettvangi.

SVT ræðir jafnframt við hinn sextán ára Axel, sem býr í nágrenni við flugvöllinn í Umeå og tók slysið upp á myndband. Hann lýsir því hvernig hann hafi setið inni í stofu þegar hann heyrði hátt vélarhljóð.

„Hún brotlenti með háum hvelli og svo varð allt hljótt. Hjartslátturinn varð mjög hraður, ég náði vart andanum og stóð bara og hugsaði: Hvað í fjandanum er að gerast, hvað í fjandanum er að gerast, hvað geri ég nú?“ segir Axel í samtali við SVT.

Þegar fyrst var tilkynnt um slysið var ekki ljóst hvort flugvélin hefði hrapað í sjó eða á land en síðar kom í ljós að hún brotlenti á eyjunni Storsandskär, skammt frá flugbraut flugvallarins í Umeå.

Umeå er í norðausturhluta Svíþjóðar en um 87 þúsund manns búa í borginni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.