Innlent

Illa slasaður eftir fjór­hjóla­slys við Geysi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi við Geysi í dag.
Frá vettvangi við Geysi í dag. vísir/mhh
Einn maður var fluttur illa slasaður á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar um hádegisbil í dag eftir fjórhjólaslys við Geysi.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að maðurinn hafi verið einn á fjórhjólinu þegar honum fipaðist og velti hjólinu. Sjúkrabíll fór á móti þyrlunni sem flutti manninn til Reykjavíkur eins og áður segir.

Oddur vill ekki svara því á hvaða aldri maðurinn væri eða hvort hann væri Íslendingur eða útlendingur. Þá vill hann heldur ekki gefa það upp hvort maðurinn sé talinn í lífshættu.

Tafir urðu á umferð við slysstað í dag.vísir/mhh
Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður okkar, lýsti aðstæðum á vettvangi í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Sagði hann greinilegt að orðið hefði alvarlegt umferðarslys, akkúrat við gangbrautina þar sem fólk gengur frá versluninni við Geysi og yfir á sjálft hverasvæðið.

Lögreglubílar, sjúkrabílar og björgunarsveitarmenn voru á vettvangi. Mikið var af ferðamönnum við Geysi eins og venjan er nánast allan ársins hring og þá mynduðust langar bílaraðir í báðar áttir á meðan vinna fór fram á slysstað.Fréttin var uppfærð klukkan 15:52 með færslu lögreglunnar á Suðurlandi hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.