Fótbolti

Valsmenn eiga erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld

Hjörvar Ólafsson skrifar
Valsmaðurinn Ólafur Karl Finsen í kröppum dansi í fyrri leiknum. Því miður fyrir Valsmenn náði hann ekki að skora.
Valsmaðurinn Ólafur Karl Finsen í kröppum dansi í fyrri leiknum. Því miður fyrir Valsmenn náði hann ekki að skora. vísir/bára
Valur freistar þess í dag að snúa við taflinu í viðureign sinni við slóvenska liðið Maribor í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspynu karla sem fram fer ytra klukkan 18.15 að íslenskum tíma í dag.

Valsmenn lutu í lægra haldi 3-0 í fyrri leik liðanna og því er ljóst að verkefnið verður ærið hjá Hlíðar-endaliðinu á móti sterku slóvensku liði.

Fari svo að Valur falli úr leik í kvöld fer liðið í aðra umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem andstæðingurinn verður annað hvort búlgarska liðið Ludogorets eða ungverska liðið Ferencvaros. Þrjú önnur Íslendingalið verða í eldlínunni í kvöld en staða þeirra liða er misjöfn fyrir leiki kvöldsins.

Rúnar Már Sigurjónsson og samherjar hans hjá kasakska liðinu Astana eru 1-0 yfir í einvígi sínu við Dan Petrescu og lærisveina hans hjá rúmenska liðinu Cluj.

Rúnar Már gekk nýlega til liðs við Astana og vonast til þess að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti á ferlinum.

Kolbeinn Sigþórsson, sem opnaði markareikning sinn fyrir sænska liðið AIK um síðustu helgi eftir um það bil þriggja ára markaþurrð með félagsliðum sínum, fær armenska liðið Ararat-Armenia í heimsókn.

Armenarnir fóru með 2-1 sigur af hólmi í fyrri leiknum. Þá leika Willum Þór Willumsson og liðsfélagar hans hjá hvítrússneska liðinu BATE-Borisov við pólska liðið Piast Gliwice í Póllandi en fyrri leik liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×