Erlent

Íranir hertóku tvö bresk olíuskip

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Olíuskipið Stena Impero.
Olíuskipið Stena Impero. Mynd/Stena bulk
Utanríkisráðherra Bretlands hefur lýst yfir miklum áhyggjum eftir að Íranir hertóku tvö bresk olíuskip í Hormússundi í dag. Um er að ræða skipið Stena Impero, sem siglir undir breskum fána, og skipið Mesdar, sem siglir undir líberískum fána en er í eigu Breta.

Fyrst var greint frá því að hermenn á vegum Byltingarvarðarins, sérdeildar í íranska hernum, hefðu lagt hald á Stena Impero, sem er í eigu útgerðarfyrirtækisins Stena Bulk, um klukkan fjögur að breskum tíma í dag. Haft var eftir eigendum skipsins að ekki hefði náðst samband við skipið síðan það var hertekið. Um borð eru 23 skipverjar.

Seinna skipið, Masdar, sem er í eigu skosku útgerðarinnar Norbulk, er sagt hafa siglt skyndilega af leið og tekið stefnuna í átt að Íran. Skipinu var síðar sleppt úr haldi og heldur nú för sinni áfram.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands.Vísir/Getty
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, staðfesti í kvöld að Íranir hefðu hertekið bæði skipin. Þá sagðist hann „gríðarlega áhyggjufullur“ vegna málsins. Skipverjar skipanna tveggja eru af mörgum þjóðernum en engir Bretar eru þó um borð.

COBRA, sérstök þjóðaröryggismálanefnd Bretlands, fundaði í dag vegna fyrra skipsins en mun koma saman aftur vegna þess seinna. Á fundinum verður rætt hvernig losa megi skipin úr haldi Írana eins fljótt og auðið er.

Þá hyggst Donald Trump Bandaríkjaforseti setja sig í samband við bresk stjórnvöld vegna skipanna, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Haft hefur verið eftir talsmönnum Byltingarvarðarins að hermenn hafi hertekið Stena Impero fyrir að hafa ekki farið að alþjóðlegum siglingalögum.

Andað hefur köldu milli Írans og Bretlands eftir að breskir sjóliðar kyrrsettu íranskt olíuflutningaskip við Gíbraltar. Það gerðu Bretar vegna gruns um að íranska skipið væri að flytja olíu til Sýrlands, í trássi við viðskiptaþving­anir Evrópusambandsins.

Í dag tilkynntu yfirvöld í Gíbraltar að kyrrsetning skipsins yrði framlengd, aðeins nokkrum klukkustundum áður en Íranir hertóku bresku skipin í dag. Íranir hafa síðustu vikur hótað því að kyrrsetja breskt olíuskip.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×