Enski boltinn

Sporting hafnaði tilboði Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes vann Þjóðadeildina með portúgalska landsliðinu og lyftir hér bikarnum.
Bruno Fernandes vann Þjóðadeildina með portúgalska landsliðinu og lyftir hér bikarnum. Getty/Chris Brunskill
Ole Gunnar Solskjær er ekkert hættur í leit sinni að framtíðarleikmönnum Manchester United og núna horfir hann til Portúgals.

Manchester United hefur boðið í portúgalska landsliðsmanninn Bruno Fernandes en Sporting Lissabon hafnaði fyrsta tilboði enska félagsins samkvæmt heimildum ítalsks blaðamanns.

Bruno Fernandes átti frábært tímabil og er miðjumaður sem býr til mörg mörk fyrir sitt lið. Það er því ekkert skrýtið að portúgalska félagið vilji fá góðan pening fyrir hann.







Nicolo Schira, blaðamaður La Gazzetta dello Sport, fylgist vel með gangi mála og hefur verið fyrstur með fréttirnar í þessu máli.

Hann segir að Manchester United hafi boðið 31 milljón pund í Bruno Fernandes sem átti frábært tímabil með Sporting. Bruno Fernandes er 24 ára gamall og kom til Sporting frá Ítalíu þar sem hann spilðai 119 leiki í Seríu A með Sampdoria og Udinese.

Á nýloknu tímabili þá var hann með 20 mörk og 13 stoðsendingar í 33 deildarleikjum með Sporting Lissabon. Frábærar tölur fyrir leikmann sem spilar á miðjunni.

„Sporting vill fá meira fyrir hann en Bruno Fernandes er með samning á borðinu sem gefur honum sex milljónir evra í árslaun auk bónusa,“ skrifar Nicolo Schira.

„Sporting vonast til þess að fleiri félög hafi það mikinn áhuga á Bruno að úr verði hálfgert uppboð. Eins og staðan er núna þá hefur aðeins Manchester United gert tilboð,“ skrifaði Nicolo Schira.





Manchester United hefur þegar eytt 65 milljónum punda í nýja leikmenn í sumar en liðið hefur keypt þá Daniel James og Aaron Wan-Bissaka sem báðir eru 21 árs gamlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×