Stjórnvöld í Kreml sæta gagnrýni heima fyrir vegna eldsvoða í kafbáti sem varð fjórtán manna áhöfn að bana á mánudag. Ekki var greint frá eldsvoðanum fyrr en í gær og hafa stjórnvöld veitt takmarkaðar upplýsingar um atvik.
Samkvæmt rússneskum yfirvöldum létust bátsverjarnir af völdum eiturgufa frá eldinum. Þau hafa lýst kafbátnum sem djúpsjávarrannsóknakafbát sem hafi verið við mælingar á sjávarbotninum í Barentshafi innan rússneskrar lögsögu.
Ekkert hefur komið fram um hvort að kafbáturinn hafi verið kjarnorkuknúinn eða hvaða gerðar hann var, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlarstjórnar, vísaði spurningu um hvort báturinn hafi verið kjarnaknúinn á varnarmálaráðuneytið. Norsk stjórnvöld segjast ekki hafa orðið vör við óvenjulega geislun.
Í rússneskum fjölmiðlum hefur heyrst gagnrýni á stjórnvöld og viðbrögðum þeirra líkt við það þegar sovésk yfirvöld þögðu þunnu hljóði um kjarnorkuslysið í Tsjérnóbíl árið 1986.
„Það er alls ekkert vitað í augnablikinu, hver, hvað…Ég skil ekki eitt: hvers vegna leið dagur og fyrst þá gáfu þeir út yfirlýsingu um þá látnu? Hvers vegna vitum við ekki nöfn þeirra? Er þetta eðlilegt?“ spurði Jevgení Butnman, þulur á útvarpsstöðinni Ekho Moskvy.
Fréttastofan RBC hélt því fram að kafbáturinn væri af gerðinni AS-12 og væri kjarnorkuknúinn. Hann væri hannaður til að kafa á miklu dýpi og er einn þeirra kafbáta sem mest leynd ríkir yfir í rússneska flotanum.
Nítján ár eru frá því að 118 rússneskir sjóliðar fórust um borð í kjarnorkuknúna kafbátnum Kursk í Barentshafi. Líkt og nú voru rússnesk stjórnvöld gagnrýnd fyrir hæg viðbrögð og lélegar björgunartilraunir. Þá líkt og nú var Vladímír Pútín forseti landsins.
Rússar sakaðir um að hylma yfir kafbátaslys

Tengdar fréttir

Fjórtán Rússar fórust þegar eldur kviknaði í kafbáti
Fjórtán manna áhöfn rannsóknarkafbáts rússneska sjóhersins fórst af völdum eiturgufa sem losnuðu þegar eldur kom upp um borð.