Erlent

Hafa áhyggjur af samningsleysi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson, líklegur arftaki.
Boris Johnson, líklegur arftaki. Nordicphotos/AFP
Breskir þingmenn úr bæði Íhaldsflokki og Verkamannaflokki sögðust í gær vera að leita leiða til þess að koma í veg fyrir að næsti forsætisráðherra beiti sér fyrir samningslausri útgöngu úr Evrópusambandinu, þvert gegn vilja þingsins. Boris Johnson mælist í könnunum líklegastur til þess að taka við forsætisráðuneytinu þegar Theresa May stígur til hliðar.

Hann hefur heitið því að Bretar virði útgöngudagsetninguna, 31. október, og fresti ekki útgöngu líkt og áður hefur verið gert, jafnvel þótt það þýði útgöngu án samnings.

„Við myndum knýja fram vantraustsatkvæðagreiðslu þegar við erum sannfærð um að þeir Íhaldsmenn sem hafa sagst styðja slíka tillögu til að koma í veg fyrir samningslausa útgöngu séu líklegir til að styðja hana í raun og veru,“ sagði Barry Gardiner, upplýsingafulltrúi Verkamannaflokksins, við Sky News.

Sam Gyimah, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði við sama miðil að það væri síðasta úrræði að greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni og að hann ætlaði sér það ekki. Hann væri hins vegar, líkt og um þrjátíu aðrir þingmenn flokksins, viljugur til þess að styðja frumvörp sem myndu hindra samningslausa útgöngu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×