Enski boltinn

Manchester United búið að finna arftaka Pogba yfirgefi hann félagið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sergej Milinkovic-Savic í bikarúrslitunum á Ítalíu á síðustu leiktíð.
Sergej Milinkovic-Savic í bikarúrslitunum á Ítalíu á síðustu leiktíð. vísir/
Manchester United hefur áhuga á að klófesta miðjumann Lazio, Sergej Milinkovic-Savic, yfirgefi Paul Pogba Manchester-liðið í sumar en Corriere Dello Sport á Ítalíu greinir frá.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Pogba hjá United undanfarnar vikur en í síðustu viku staðfesti umboðsmaður hans, Mino Raiola, að Pogba vilji burt frá Englandi.

Forráðamenn United eru því byrjaðir að undirbúa sig missi þeir Pogba í sumar því annar miðjumaður, Ander Herrera, yfirgaf einnig félagið í sumar. Hann samdi til fimm ára við franska stórliðið, PSG.

Sergej Milinkovic-Savic er þar efstur á blaði United en Serbinn var lykilmaður í liði Lazio sem vann ítalska bikarinn. Hann hefur leikið með Lazio síðan 2015 og á að baki tólf landsleiki.

Hann er einungis 24 ára gamall en United er ekki eina félagið sem hefur áhuga á honum. PSG er einnig sagt áhugasamt um að klófesta Serbann sem ólst upp í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×