Íslenski boltinn

Pepsi Max-mörkin: Túfa þarf að bjóða Jóhanni Gunnari í mat

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Boltinn virðist ekki hafa farið allur yfir línuna
Boltinn virðist ekki hafa farið allur yfir línuna s2 sport
Srdjan Tufegdzic þarf að standa við stóru orðin og bjóða Jóhanni Gunnari Guðmundssyni í mat því Sigurður Bjartur Hallsson kom boltanum ekki inn fyrir marklínuna í leik Stjörnunnar og Grindavíkur.

Stjarnan og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í 12. umferð Pepsi Max deildar karla á föstudaginn. Í seinni hálfleik átti Sigurður Bjartur skalla að marki sem Haraldur Björnsson varði. Vafi var þó um hvort boltinn hafi náð að fara allur yfir línuna.

Þorvaldur Árnason dæmdi upphaflega mark en eftir fundarhöld með Jóhanni Gunnari aðstoðardómara sneri Þorvaldur þeim dómi við.

„Við fengum dauðafæri til að vinna þennan leik. Síðan er mark sem var dæmt af sem verður að sjá betur. Ef Jóhann Gunnar hefur rétt fyrir sér þá ætla ég bara að bjóða honum í mat,“ sagði Túfa, þjálfari Grindavíkur, eftir leik.

Hörður Magnússon og félagar í Pepsi Max mörkunum skoðuðu þetta atvik aftur og aftur og komust að lokum að þeirri niðurstöðu, með hjálp teiknitölvunnar sem hefur verið kölluð varsjá þáttarins, að boltinn hafi aldrei farið allur yfir línuna.

Grindavík átti því ekki að fá mark við þetta tilefni og aðstoðardómarinn hafði rétt fyrir sér. Þá er bara að sjá hvort Túfa standi við orðin og bjóði Jóhanni í mat.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Ekki mark hjá Grindavík





Fleiri fréttir

Sjá meira


×