Erlent

Dregur sig úr for­vali Demó­krata­flokksins

Sylvía Hall skrifar
Eric Swalwell á blaðamannafundi í gær.
Eric Swalwell á blaðamannafundi í gær. Vísir/Getty
Þingmaðurinn Eric Swalwell tilkynnti á blaðamannafundi í gær að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í forvali Demókrataflokksins. Þar með endar þingmaðurinn þriggja mánaða kosningabaráttu sína en hann tilkynnti um framboð sitt í viðtali við þáttastjórnandann Stephen Colbert í apríl síðastliðnum.

Ástæða ákvörðunarinnar er lélegt gengi í skoðanakönnunum að sögn Swalwell. Í stórum hópi frambjóðenda hefur honum reynst erfitt að vekja á sér athygli og skera sig úr fjöldanum og eftir fyrstu kappræðurnar hafi útlitið ekki batnað.





„Eftir fyrstu kappræður Demókrataflokksins hefur gengi í skoðanakönnunum og fjáröflun ekki verið í samræmi við það sem við vonuðumst eftir og ég sé ekki fram á að hljóta tilnefninguna. Forsetaframboð mitt endar í dag,“ sagði Swalwell á blaðamannafundi.

Swalwell á meðal yngstu frambjóðenda í forvalinu en hann er aðeins 38 ára gamall. Hann er hvað þekktastur fyrir störf sín í leyniþjónustunefnd og dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þá tók hann einnig þátt í rannsókninni á aðkomu Rússa í forsetakosningunum árið 2016.

Eftir tilkynningu Swalwell standa nú 23 frambjóðendur eftir sem vonast eftir því að hljóta tilnefningu. Ein þeirra, Elizabeth Warren, þakkaði Swalwell fyrir að vekja athygli á breytingum á skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum og hét hún því að halda þeirri baráttu áfram í sínu framboði.




Tengdar fréttir

Spjótin stóðu á Biden í kappræðunum

Ferilskrá fyrrverandi varaforsetans í málefnum kynþáttanna í Bandaríkjunum var sérstaklega í sviðsljósinu í sjónvarpskappræðum demókrata í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×