Fótbolti

Hornið hans Rúnars réði úrslitum í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson. EPA/ENNIO LEANZA
Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana unnu 1-0 sigur á rúmenska liðinu CFR Cluj í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Leikurinn fór fram á heimavelli Astana liðsins í Kasakstan. Seinni leikurinn er í Rúmeníu og sigurvegarinn mætir Maccabi Tel-Aviv frá Ísrael í næstu umferð.

Rúnar Már Sigurjónsson spilaði allan leikinn á miðju Astana en hann kom til liðsins frá svissneska félaginu Grasshopper á Þjóðhátíðardaginn 17. júní síðastliðinn.

Astana hafði heppnina með sér í fyrri hálfleiknum þegar Billel Omrani brenndi af algjöru dauðafæri fyrir CFR Cluj. Sigurmark Astana kom síðan á 68. mínútu leiksins.

Miðvörðurinn Yevgeny Postnikov skoraði eina markið en það kom eftir að horn Rúnars Más skapaði mikinn usla í vörn Rúmenanna.

Astana er á toppnum í deildinni í Kasakstan og CFR Cluj vann rúmenska meistaratitilinn á síðustu leiktíð.

Það var mikilvægt fyrir Astana að halda hreinu á heimavelli en eitt mark er samt lítið forskot fyrir seinni leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×