Erlent

Yfirheyrðu höfund umdeildrar skýrslu um Trump í sextán tíma

Kjartan Kjartansson skrifar
Skrifstofur ráðgjafarfyrirtækis Steele í London. Steele tók saman skýrslu um tengsl Trump við Rússland fyrir forsetakosningarnar árið 2016.
Skrifstofur ráðgjafarfyrirtækis Steele í London. Steele tók saman skýrslu um tengsl Trump við Rússland fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Vísir/Getty
Lögfræðingar bandaríska dómsmálaráðuneytisins sem rannsaka upptök Rússarannsóknarinnar svonefndu ræddu við Christopher Steele, breskan fyrrverandi njósnara, í sextán tíma í síðasta mánuði. Steel er höfundur umdeildrar skýrslu um meint tengsl Donalds Trump Bandaríkjaforseta við rússnesk stjórnvöld.

Steele-skýrslan svonefnda hefur ítrekað orðið að skotspóni Trump forseta og bandamanna hans undanfarin misseri. Skýrsluna tók hann saman fyrir rannsóknafyrirtækið Fusion GPS sem hafði verið ráðið til að rannsaka tengsl Trump við Rússland, fyrst af andstæðingum Trump í forvali Repúblikanaflokksins en síðar af landsnefnd Demókrataflokksins.

Upplýst var um efni skýrslunnar í byrjun árs 2017, þar á meðal svæsnar en óstaðfestar frásagnir af heimsóknum Trump til Moskvu. Þar voru færð rök fyrir því að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 og að samráð hafi átt sér stað á milli þeirra og framboðs Trump.

Rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, staðfesti mat leyniþjónustu Bandaríkjanna að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar og tryggja Trump sigur. Ekki var sýnt fram á að glæpsamlegt samsæri hafi átt sér stað á milli framboðsins og Rússa. Í skýrslu Mueller var engu að síður lýst fjölda samskipta Rússa og starfsmanna framboðsins.

Trump og bandamenn hans hafa ítrekað haldið því ranglega fram að skýrslan hafi verið grundvöllur rannsóknarinnar á meintu samráði framboðs hans við rússnesk stjórnvöld. Alríkislögreglan og dómsmálaráðuneytið hafi fengið hlerunarheimild gegn fyrrverandi starfsmanni framboðs Trump á grundvelli hennar.

Carter Page, fyrrverandi starfsmaður framboðs Trump sem var undir eftirliti FBi.Getty/Mark Wilson

Töldu vitnisburð njósnarans trúverðugan

Innri endurskoðandi dómsmálaráðuneytisins rannsakar nú tildrög Rússarannsóknarinnar svonefndu og þá sérstaklega hvort hlerunarheimildin gegn Carter Page, fyrrverandi starfsmanni framboðs Trump, hafi verið fengin með réttmætum hætti. Page hafði áður verið á lista bandarískra yfirvalda vegna samskipta við útsendara rússneskra stjórnvalda. Trump og félagar hafa lýst hlerunarheimildinni sem sönnun þess að „njósnað“ hafi verið um framboðið.

Þrír lögfræðingar hans ræddu við Steele í London í júní, á sama tíma og Trump forseti var þar í opinberri heimsókn, samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar.

Viðtalið er sagt hafa farið erfiðlega af stað. Lögfræðingarnir hafi þó talið framburð Steele nægilega trúverðugan til að framlengja rannsókn sína. Bandaríska blaðið Politico segir að framburður Steele hafi komið lögfræðingunum á óvart. Hann hafi veitt þeim nýjar og mikilvægar upplýsingar.

New York Times heldur því fram að innri endurskoðandinn sé nærri því að birta niðurstöðu rannsóknar sinna á tildrögum Rússarannsóknarinnar. Lögfræðingarnir hafi gengið á Steele um hvernig hann staðfesti heimildir sínar í Rússland, hvernig hann greindi frá þeim og hvernig hann ákvað hvaða fullyrðingar þeirra hann setti í skýrslu sína. Þá spurðu þeir hann út í samskipti sín við fulltrúa alríkislögreglunnar FBI og ráðuneytið sjálft.

Ólíkt því sem Trump og bandamenn hans hafa haldið fram má rekja upphaf Rússarannsóknarinnar til þess að sendiherra Ástralíu gerði bandarískum yfirvöldum viðvart um að George Papadopoulos, utanríkismálaráðgjafi framboðs Trump, hafi fullyrt við sig að Rússar byggju yfir fjölda tölvupósta Hillary Clinton nokkru áður en uppljóstranavefurinn birti þá opinberlega. Rússneskir hakkarar stálu póstum hennar og landsnefndar Demókrataflokksins.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.