Fótbolti

Spánverjar komnir áfram og með Ólympíusæti en Ítalir þurfa að bíða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spánverjar fagna.
Spánverjar fagna. vísir/getty
Spánverjar eru komnir í undanúrslit Evrópumóts U-21 árs landsliða eftir 5-0 sigur á Pólverjum í A-riðli í kvöld.

Spánn vann riðilinn og Ítalía, sem vann Belgíu í kvöld með þremur mörkum gegn einu, endaði í 2. sæti.

Til að komast áfram verða Ítalir að treysta á að Danir vinni Serba ekki með meira en tveimur mörkum og að Frakkar fái ekki stig gegn Rúmenum.

Pablo Fornals, nýjasti leikmaður West Ham, Mikel Oyarzabal, Fabián Ruiz, Dani Ceballos og Borja Mayoral skoruðu mörk Spánar gegn Póllandi sem vann vann fyrstu tvo leiki sína á EM en fékk skell í kvöld.

Með sigrinum tryggði Spánn sér ekki bara sæti í undanúrslitum EM heldur einnig sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári.

Nicolò Barella, Patrick Cutrone og Federico Chiesa skoruðu mörk Ítalíu gegn Belgíu. Belgar töpuðu öllum þremur leikjum sínum í A-riðli.

Chiesa, sem leikur með Fiorentina, er næstmarkahæstur á EM með þrjú mörk. Þjóðverjinn Luca Waldsmicht er markahæstur með fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×