Fótbolti

Samherji Birkis tryggði Fílabeinsströndinni sigur gegn Suður-Afríku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kodija í landsleik með Fílabeinsströndinni.
Kodija í landsleik með Fílabeinsströndinni. vísir/getty

Jonathan Kodija tryggði Fílabeinsströndinni 1-0 sigur á Suður-Afríku í D-riðil Afríkukeppninnar sem haldinn er í Egyptalandi um þessar mundir.

Kodija er samherji Birkis Bjarnasonar hjá Aston Villa en framherjinn skoraði níu mörk í þeim 39 leikjum sem hann kom við sögu í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð. Villa tryggði sig upp í deild þeirra bestu.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð fjörugur þrátt fyrir að vera markalaus. Suður-Afríka fékk fínt færi á 26. mínútu er skalli Lebo Mothiba fór rétt framhjá markinu.

Nicolas Pepe þrumaði boltanum í slá úr aukaspyrnu Fílabeinsstrandarinnar og mínútu síðar slapp Kodija einn gegn markverði Suður-Afríka en lét verja frá sér.

Markalaust var er liðin gengu til búningsherbergja en sárafáir voru mættir til þess að fylgjast með leiknum. Fyrsta og eina markið kom hins vegar á 64. mínútu.

Eftir flott spil upp vinstri vænginn, gaf Max-Alain Gradel frábæra sendingu fyrir markið þar sem Jonathan Kodija var mættur, einn á auðum sjó, og skilaði boltanum í netið.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiksins og Fílabeinsströndin er því komin með þrjú stig eins og Marokkó í D-riðlinum. Namibía og Suður-Afríka eru án stiga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.