Erlent

Sviptur lækningaleyfi eftir að hafa notað eigið sæði við tæknisæðingar í áratugi

Sylvía Hall skrifar
Eitt fórnarlambanna segist hafa komist í kynni við fimmtán hálfsystkini sín.
Eitt fórnarlambanna segist hafa komist í kynni við fimmtán hálfsystkini sín. Vísir/Getty

Kanadíski frjósemislæknirinn Norman Barwin hefur misst lækningaleyfi sitt eftir að í ljós kom að hann hafði notað eigið sæði í tæknisæðingum sjúklinga sinna. Ásakanirnar ná aftur til áttunda áratugarins og er hann sagður hafa notað eigið sæði eða annað óþekkt sæði í að minnsta kosti þrettán tilvikum.

Þetta kemur fram á vef BBC en þar segir að rannsókn á tilvikunum hafi hafist árið 2016. Ná tilfellin til sjúklinga á tveimur heilsugæslum sem hann starfaði á í Ontario í Kanada. Barwin, sem er í dag áttræður, hefur ekki stundað lækningar frá árinu 2014.

Fjögur fórnarlömb Barwins báru vitni fyrir nefnd og sagði Rebecca Dixon, eitt þeirra barna sem varð til með sæði hans, að hún hafi efast um persónu sína eftir að málið komst upp. Hún var 25 ára gömul þegar hún komst að því að Barwin væri líffræðilegur faðir hennar. Hún segist hafa komist í kynni við fimmtán „hálfsystkini“ sín eftir að hafa komist að uppruna sínum.

„Mér finnst eins og það hafi verið brotið á mér, nánast eins og mér hafi verið nauðgað,“ sagði annað fórnarlamb við fyrirtöku málsins. Sú kona hafi beðið Barwin um að nota sæði eiginmanns síns við tæknisæðinguna.

Þá bar einn maður einnig vitni fyrir nefndinni en hann hafði staðið í þeirri trú um að börn þeirra hjóna hafi verið getin með hans sæði eftir tæknisæðingu. Hann segir það hafa verið eins og að vera kýldur í magann þegar hann komst að hinu rétta.

„Ímyndaðu þér þá hægu kvöl að fylgjast með börnunum mínum vaxa úr grasi og líkjast mér minna og minna.“

Barwin mætti ekki fyrir nefndina þegar mál hans var tekið fyrir. Nefndin sagðist harma gjörðir hans og sögðu það miður að þau hefðu ekki vald til þess að gera meira en að afturkalla lækningaleyfi hans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.