Erlent

Trump segist vilja taka í spaðann á Kim

Andri Eysteinsson skrifar
Trump hefur áður tekið í spaðann í norður-kóreskum kollega sínum.
Trump hefur áður tekið í spaðann í norður-kóreskum kollega sínum. Nordicphotos/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir á Twitter síðu sinni í kvöld að eftir að mikilvægum fundi hans með Xi Jingping, forseta Kína, lýkur muni hann halda frá Japan til Suður-Kóreu ásamt forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in. Þar sé hann opinn fyrir því að hitta Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu á landamærum landanna og þar taka í spaðann á honum. Reuters greinir frá.

Trump er nú staddur í Japan til að taka þátt á þingi G-20 ríkjanna.

Á landamærum Norður- og Suður-Kóreu er að finna svokallað sameiginlegt öryggissvæði landanna (DMZ), svæðið hefur verið til í þeirri mynd sem að er í dag frá árinu 1953 eða frá lokum Kóreustríðsins. Þar er að finna skála þar sem ráðamenn ríkjanna hafa getað haldið samningaviðræður sín á milli. Einnig er svæðið þekktur ferðamannastaður.

Kim og Trump hafa hist í tvígang. Í fyrstu í Singapúr 12. júní 2018 og seinna í Hanoi í Víetnam 27.-28. febrúar í ár. Fundirnir skiluðu ekki árangri en orðrómar hafa verið uppi um að sendinefndir ríkjanna séu jafnvel að ræða saman um skipulag næsta fundar.





 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×