Innlent

Bleiki skatturinn af­numinn: Getnaðar­varnir og tíða­vörur færast í neðra skatt­þrep

Sylvía Hall skrifar
Virðisaukaskattur á tíðavörur lækkar úr 24 prósentum niður í ellefu.
Virðisaukaskattur á tíðavörur lækkar úr 24 prósentum niður í ellefu. Vísir/Getty
Alþingi samþykkti í dag að lækka virðisaukaskatt á tíðavörur og getnaðarvarnir úr efra þrepi niður í það neðra. Lögin taka þegar gildi.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og var það lagt fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingar, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Með frumvarpinu var lagt til að einnota og margnota tíðavörur á borð við dömubindi, tíðatappa og álfabikarar myndu falla í lægra þrep virðisaukaskatts. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af þessum virðisaukaskatti hljóðuðu upp á 37,9 milljónir árlega.

Með þessum breytingum lækkar virðisaukaskattur á þessar vörur úr 24 prósentum niður í ellefu prósent og segir í tilkynningu frá Pírötum að því beri að fagna í ljósi þess að vörurnar eru nauðsynjavörur frekar en munaðarvörur.

Markmið laganna er að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara ásamt því að jafna aðstöðumun fólks að aðgengi að mismunandi formi getnaðarvarna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×