Erlent

Joðtöflur rjúka út eftir velgengni Tsjernóbílþáttanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Hjúpurinn yfir kjarnaofni fjögur í Tjsernóbíl sem sprakk nóttina örlagaríku árið 1986. Slysið er talið alvarlegasta kjarnorkuslys í sögunni.
Hjúpurinn yfir kjarnaofni fjögur í Tjsernóbíl sem sprakk nóttina örlagaríku árið 1986. Slysið er talið alvarlegasta kjarnorkuslys í sögunni. Vísir/EPA

Sala á joðtöflum í Noregi hefur stóraukist eftir að þáttaröð um kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl voru frumsýndir fyrir rúmum mánuði. Yfirmaður geislavarna þar segir þættina áminningu um að þó að líkurnar á stórslysi séu litlar þurfi fólk að vera búið undir það.

Á þeim fimm vikum sem liðnar eru frá því að fyrsti þáttur raðarinnar „Tsjernóbíl“ var frumsýndur hafa 1.900 joðtöflur verið seldar í Noregi. Það eru tvöfalt fleiri töflur en seldar voru vikurnar fimm á undan, að því er segir í frétt norska ríkisútvarpsins NRK. Joð kemur í veg fyrir að skjaldkirtill fólks safni í sig geislavirku efni.

Þáttaröðin nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir. Hún segir frá atburðum þegar kjarnaofn sprakk í Tsjernóbíl-kjarnorkuverinu í Úkraínu, sem þá var hluti af Sovétríkjunum, aðfaranótt 26. apríl árið 1986.

Astrid Liland, yfirmaður neyðarundirbúnings Geislavarna- og kjarnorkuöryggisstofnunar Noregs, segir þáttaröðina gefa glögga mynd af því sem gerðist.

„Þáttaröðin minnir okkur á að hlutirnir geta farið alvarlega úrskeiðis. Þó að líkurnar á sambærilegum hamförum séu litlar verður fólk að vera undirbúið,“ segir Liland.

Fjöldi kjarnorkuvera er í Evrópu. Ef til kjarnorkuslyss kæmi segir Liland nauðsynlegt að hafa joðtöflur til taks. Mælt sé með því að fólk yngra en fertugt, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti eigi joðtöflur til öryggis. Hægt er að kaupa joðtöflur án lyfseðils í Noregi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.