Innlent

Hundar valda slysum á hestamönnum norðan heiða

Sveinn Arnarsson skrifar
Hestamenn á Akureyri kvarta undan lausagöngu hunda.
Hestamenn á Akureyri kvarta undan lausagöngu hunda. Fréttablaðið/Stefán
Hestamaður á Akureyri slasaðist fyrir skömmu þegar laus hundur fældi hest undan honum. Nokkur viðlíka slys hafa orðið á fólki á undanförnum árum í hesthúsahverfum og á reiðleiðum við Akureyri en lausaganga hunda er bönnuð í bæjarlandinu.Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Léttis, segir sorglegt að slys verði af þessu tagi. Hann staðfestir að kona hafi slasast við tamningar inni í svokölluðu tamningagerði í hesthúsahverfinu sunnan Glerár fyrir skömmu. Ástæða þess var að inn í gerðið kom laus hundur. Tamningahrossinu hafði þá orðið bylt við og stokkið til hliðar með þeim afleiðingum að tamningamaðurinn datt af baki.Sigfús staðfestir einnig að þetta slys sé ekki það eina á síðustu árum þar sem lausir hundar hræða hross. „Það er sorglegt að menn virði ekki þessa einföldu lögreglusamþykkt, að lausaganga hunda sé bönnuð í bæjarlandinu,“ segir Sigfús.„Það er líka afar leiðinlegt að hestamenn sjálfir brjóti þessa reglu. Við höfum auðvitað ekkert á móti hundum en við verðum bara að virða þessar reglur sem okkur og öllum bæjarbúum eru settar.“ Ljóst þykir að hundar sem ganga lausir í hesthúsahverfinu séu í eigu annarra hestamanna í hverfinu.Því eru það hestamennirnir sjálfir sem valda því að slysahætta er meiri á reiðleiðunum vegna þessa. Töluvert hefur verið kvartað undan þessu undanfarin ár með litlum árangri. „Þetta er sorglegt, ég á bara eitt orð yfir þetta. Það er búið að ræða þetta á fundum margsinnis og gefa út tilkynningar um að lausaganga sem þessi sé bönnuð,“ segir Sigfús.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.