Valur mætir Maribor frá Slóveníu í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu, en dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Sviss í dag.
Valsmenn byrja á Hlíðarenda 9. eða 10. júlí og spila svo seinni leikinn ytra 16. eða 17. júlí.
Maribor ætti að vera íslenskum fótboltaáhugamönnum nokkuð kunnugt en liðið mætti FH í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar árið 2017. Þar höfðu Slóvenarnir betur, unnu báða leikina 1-0.
Maribor hefur sjö sinnum á síðustu tíu árum orðið slóvenskur meistari. Maribor komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2017 og 2014. Fyrstu ár þessa áratugar var liðið reglulegur gestur í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Astana, nýtt félag Rúnars Más Sigurjónssonar, mætir rúmenska liðinu CFR Cluj. Kolbeinn Sigþórsson og félagar í AIK spila við Ararat-Armenia. BATE Borisov með Willum Þór Willumsson innanborðs mætir Piast Gliwice.
Skosku meistararnir í Celtic mæta FC Sarajevo og Heimir Guðjónsson fer með lærisveina sína í HB Þórshöfn til Helsinki.

