Erlent

Gekk fram á krókódíl sem sat að sumbli

Andri Eysteinsson skrifar
Krókódíll beið Mary Wischhusen í eldhúsinu aðfaranótt föstudags.
Krókódíll beið Mary Wischhusen í eldhúsinu aðfaranótt föstudags. Mynd/Clearwater Police Department
77 ára gömul kona í Flórída-ríki í Bandaríkjunum vaknaði upp við vondan draum aðfaranótt föstudags. Konan, Mary Wischhusen, vaknaði við mikinn hávaða klukkan 3:30 á heimili hennar í bænum Clearwater í Flórída. Sky greinir frá.

Þegar Wischhusen kannaði aðstæður komst hún að því að það sem hún grunaði að væri innbrotsþjófur var í raun og veru 3 metra langur krókódíll á eldhúsgólfinu. Wischhusen segir í samtali við staðarmiðilinn Spectrum News að hún hafi umsvifalaust flúið til baka inn í svefnherbergi, hringt á lögregluna og spilað tölvuleiki til þess að róa taugarnar uns hjálp barst.

Lögreglan í Clearwater hefur birt myndir, myndbönd og hljóðupptökur frá heimili Wischhusen. Þar sést að krókódíllinn hafði brotist inn um rúðu, komið sér vel fyrir og brotið rauðvínsflöskur heimilisins. Lá krókódíllin þar á eldhúsgólfinu, baðaður í rauðvíni.

Krókódíllinn hafði skorið sig á gleri og var því færður á krókódílaathvarf til þess að jafna sig áður en honum verður komið fyrir á verndunarsvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×