Fótbolti

Neymar meiddur og missir af Suður-Ameríkukeppninni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Neymar liggur í grasinu í nótt.
Neymar liggur í grasinu í nótt. vísir/getty
Framherjinn Neymar verður ekki með Brasilíu í Suður-Ameríkukeppninni í sumar eftir að hafa meiðst á ökkla í vináttulandsleik í nótt.

Brasilía vann 2-0 sigur á Katar en þeir Richarlison og Gabriel Jesus, framherjar Everton og Manchester City skoruðu mörkin.

Neymar var skipt af velli á 21. mínútu og hann nánast borinn strax inn í búningsherbergi. Tite, þjálfari Brasilíu, sagði í viðtali við fjölmiðla eftir leik að hann vonaðist eftir að meiðslin væru ekki alvarleg.







Nú er þó komið í ljós að Brasilía verður án Neymar í Suður-Ameríkukeppninni sem hefst um miðjan þennan mánuð en knattspyrnusamband Brasilíu staðfesti þetta á Twitter-síðu sinni í nótt.

Neymar hefur verið óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð en ökklinn hefur verið honum til vandræða. Hann var einnig á meiðslalistanum hjá PSG í vetur lengi vel vegna meiðsla á ökkla.

Brasilía er með Bólivíu, Venesúela og Perú í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×