Erlent

Þýskur hjúkrunarfræðingur dæmdur í lífstíðarfangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Högel í réttarsal í morgun.
Högel í réttarsal í morgun. Vísir/EPA
Fyrrverandi hjúkrunarfræðingur var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að drepa 85 sjúklinga sína í Þýskalandi í dag. Yfirvöld telja að maðurinn hafi drepið allt að 300 manns í heildina þegar hann vann á tveimur heilbrigðisstofnunum. Fjöldamorðin eru þau verstu á eftirstríðsárunum í Þýskalandi.

Niels Högel var fundinn sekur af því að hafa gefið sjúklingum sínum banvæna sprautu. Hann spilaði sig síðan sem hetju þegar hann gerði endurlífgunartilraunir á þeim, að sögn Reuters-frétttastofunnar. Þýskur dómstóll hafði áður sakfellt hann fyrir tvö morð árið 2015. Saksóknarar ákærður hann fyrir tugi morða til viðbótar í fyrra.

„Það er ómögulegt að ná utan um glæpi þína. Hugur mannsins á erfitt með að meðtaka umfang þessara glæpa,“ sagði Sebastian Bührmann, dómarinn í máli Högel, þegar hann kvað upp dóm sinn í Oldenburg í morgun.

Högel bað aðstandendur fórnarlamba sinna fyrirgefningar í yfirlýsingu í dómsal. Af hundrað morðum sem hann var ákærður fyrir að hafa framið frá 2000 til 2005 játaði hann sök af 43 en neitaði hinum. Hann var sýknaður af fimmtán morðum.

Samkvæmt þýskum lögum gæti Högel fengið lausn úr fangelsi eftir fimmtán ár. Í einstaka tilfellum eru dæmdir menn látnir afplána lífstíðarfangelsisdóma til fulls. Dómstóllinn bannaði Högel einnig að stunda hjúkrun til æviloka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×