Erlent

Þýskir græningjar velgja flokki Merkel undir uggum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisstjórn Merkel kanslara hefur átt í vök að verjast. Nú sækir umhverfisverndarflokkur að henni.
Ríkisstjórn Merkel kanslara hefur átt í vök að verjast. Nú sækir umhverfisverndarflokkur að henni. Vísir/EPA
Fylgi þýska umhverfisflokksins Græningja hefur aldrei mælst meira en í skoðanakönnun sem birt var í dag. Flokkurinn naut velgengni í Evrópuþingskosningunum í síðasta mánuði og er nú aðeins einu prósentustigi á eftir Kristilega demókrataflokki Angelu Merkel kanslara.

Græningjar fengju 26% atkvæða ef marka má könnunina sem gerð var fyrir ZDF-sjónvarpsstöðina. Fylgi þeirra hefur aldrei mælst meira frá því að byrjað var að gera könnunina árið 1991, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Samkvæmt þessu væri umhverfisverndarflokkurinn næst stærsti flokkur Þýskalands en Sósíaldemókratar, samstarfsflokkur Merkel í ríkisstjórn, mælist með 13%.

Stjórnmálaskýrendur telja að könnunin bendi til þess að pólitíska landslagið í Þýskalandi sé enn að brotna upp. Á 10. áratugnum fengu tveir stærstu flokkarnir yfirleitt allt að 80% atkvæða samtals. Nú er fylgi þeirra helmingi minna en þá.

Stjórnarmyndunarviðræður drógust mjög á langinn eftir kosningarnar árið 2017. Eftir sex mánaða langar viðræður enduðu kristilegir demókratar og sósíaldemókratar saman í ríkisstjórn. Síðarnefndi flokkurinn hefur átt undir högg að sækja undanfarið og er undir þrýstingi að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×