Enski boltinn

Ekkert fararsnið á Guardiola sem elskar að starfa hjá City

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guardiola fagnar einum af bikurum City á leiktíðinni.
Guardiola fagnar einum af bikurum City á leiktíðinni. vísir/getty
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, er ekki á leið burt frá Manchester City og segir City vera fullkominn vinnustað.

Guardiola hefur skilað tveimur Englandsmeistaratitlum nú í röð en einnig vann hann enska bikarinn og deildarbikarinn á ný yfirstaðinni leiktíð.

„Það er enginn betri staður til þess að spila og vera stjóri en á Englandi. Ég get borið þetta saman við Spán og Þýskaland. Ég hef ekki verið annarsstaðar og fari ég til Ítalíu er það svipað og Spánn,“ sagði Guardiola.

„Á öðrum stöðum þá er púað á þig ef þú vinnur ekki leiki. Hér er ég í bláu treyjunni og er einn af þeim. Ég vann ekki titil á fyrsta árinu en það var enn stuðningur við verkefnið og því gleymi ég aldrei.“

„Þú getur unnið þína vinnu hægt og rólega. Það er gott. Þetta er hinn fullkomni staður til þess að vinna á. Ég veit ekki um önnur félag á Englandi en ég finn þetta sérstaklega hér.“

„Þess vegna er ég svo ánægður og hlakka til að vinna með leikmönnunum næstu tvö árin,“ en Guardiola hefur verið mikið orðaður við þjálfaralausa Juve-menn.

Miðað við orð hans er hann ekki á leiðinni þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×