Erlent

Þúsundir hafa smitast af menguðu vatni á Askøy

Atli Ísleifsson skrifar
Tæplega 30 þúsund manns búa í sveitarfélaginu Askøy í Hörðalandi.
Tæplega 30 þúsund manns búa í sveitarfélaginu Askøy í Hörðalandi. Getty
Þúsundir íbúa í sveitarfélaginu Askøy í Hörðalandi á vesturströnd Noregs hafa veikst á síðustu dögum eftir að hafa drukkið mengað vatn. Sérfræðingar frá Lýðheilsustofnun Noregs eru nú á staðnum til að aðstoða í tilraunum yfirvalda að ná stjórn á faraldrinum.Norskir fjölmiðlar segja að íbúar á Askøy, sem er að finna norðvestur af Bergen, hafi síðustu mánuðina kvartað til yfirvalda vegna gruggugs og mislits drykkjarvatns. Á síðustu dögum hafa svo um tvö þúsund manns veikst og hefur það lýst sér í hita, uppköstum og niðurgangi.Á fimmta tug einstaklinga hafa neyðst til að leggjast inn á sjúkrahús og eru tólf börn í þeirra hópi. Á miðvikudaginn lést eins árs barn á Haukeland háskólasjúkrahúsinu í Bergen þó að enn hafi ekki fengist staðfest hvort að andlátið tengist mengaða vatninu.Fulltrúar sveitarfélagsins telja að vatnshreinsilaug hafi mengast og fékkst staðfest í gær að þrjár tegundir saurgerla hafi fundist þar, meðal annars E.coli. Þá hafa saursýni úr sjúklingum sýnt fram á leifar af kampýlóbakter.Fyrr í dag var haldinn fréttamannafundur þar sem fram kom að ekki hafi enn tekist að ná stjórn á útbreiðslunni og var því beint til íbúa að sjóða allt drykkjarvatn. Þá skulu þeir sem eru með opin sár forðast að baða sig í baðkari.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.